Starfið á árinu 2008

12. jún. 2009

Starfssvæði deilda Rauða krossins á Norðurlandi nær frá Strandasýslu í vestri til Þórshafnar í austri og eru alls tólf deildir innan vébanda þess;
A-Húnavatnssýsludeild, Akureyrardeild, Dalvíkurdeild, Húsavíkurdeild, Hvammstangadeild, Ólafsfjarðardeild, Siglufjarðardeild, Skagafjarðardeild, Skagastrandardeild, Strandasýsludeild, Þórshafnardeild og Öxafjarðardeild.

Svæðisráð er skipað þremur fulltrúum og koma þeir frá vestur-, mið- og austursvæði. Á aðalfundi deilda á svæðinu, sem haldinn var 20. september á Akureyri, tók Guðrún Matthíasdóttir, Hvammstangadeild við formennsku í svæðisráði af Sigurði Ólafssyni frá Akureyrardeild, sem lauk setu sinni í ráðinu.

Á áinu 2008 voru haldnir átta fundir í svæðisráði og voru allir nema tveir símafundir. Svæðisskrifstofa Rauða krossins á Norðurlandi er í Austurgörðum, Kelduhverfi. Svæðisfulltrúi er Guðný H. Björnsdóttir.

Þátttaka sjálfboðaliða í verkefnum á vegum deilda tekur óneitanlega mið af stærð svæðisins og því erfitt um vik að koma saman. Samvinna er um stærri verkefni og taka allar deildir þátt í þeim kostnaði sem af þeim hlýst. Deildirnar sinna svo staðbundnum verkefnum í samræmi við stefnu félagsins og þarfir á hverjum stað. Einnig er samvinna á milli samliggjandi deilda um einstök mál. Allar deildirnar sinna verkefnum eins og neyðarvörnum, fatasöfnun, einstaklingsaðstoð og skyndihjálp.

Vinadeildasamstarf
Vinadeildasamstarf er við deildina í Maputo í Mósambík. Deildirnar á Norðurlandi veittu sjálfboðaliðum í Maputo fjárstyrk jafnframt því að styrkja rekstur götubarnaheimilisins Boa Esperanca.

Fréttabréf barst frá vinadeildinni í Maputo og bíðar það svars deildanna hér heima. Batíkmyndir voru seldar og var ágóðinn settur í sjóð sem nýta á til menntunar barna á barnaheimilinu og var veitt úr honum í fyrsta sinn á árinu.

Vinnuhópurinn um vinadeildasamstarfið fundaði í gegnum síma og var í tölvupóstsamskiptum. Stefnt var að því að sjálfboðaliðar færu í heimsókn til Mósambík á árinu 2009 en því var frestað vegna ástandsins í efnahagsmálum.

Sumarbúðir
Sumarbúðir fyrir fatlaða, 15 ára og eldri, voru reknar að venju og var um að ræða tvö tímabil á Löngumýri í Skagafirði og eitt í Stykkishólmi. Þátttakendur voru á bilinu 30- 40 og eins og áður komust færri að en vildu. Starfsemin var skemmtileg að vanda en reynt er að bjóða uppá fjölbreytta afþreyingu, svo dæmi séu tekin var farið í flúðasiglingu, á sjóstöng og hvern dag var farið í sund. Deildirnar á Austfjörðum, Suðurlandi, höfuðborgarsvæðinu og Vesturlandi styrktu reksturinn með fjárframlögum.

Námskeið
Fjöldahjálparstjóranámskeið voru tvö á árinu, á Hólmavík og Sauðárkróki og sóttu þau samanlagt yfir þrjátíu manns. Bæði var um að ræða sjálfboðaliða sem voru að endurnýja réttindi sín og eins bættust nýir fjöldahjálparstjórar í hópinn.

Tveir fræðslufundir voru haldnir um geðheilbrigðismál, annar á Akureyri hinn á Sauðárkróki. Þar var einkum lögð áhersla á starf sjálfshjálparhópa og hvernig best sé að standa að málum við að halda þeim gangandi.

Mikil gróska var í námskeiðahaldi fyrir verðandi heimsóknavini, en fimm deildir buðu uppá slíkt námskeið og voru þau öll vel sótt. Var ýmist um námskeið númer tvö að ræða hjá deildunum eða að þær hugðust koma verkefni heimsóknavina í gang á sínu svæði.

Fræðsla fyrir vinnuskóla var í boði hjá Öxarfjarðar- og Húsavíkurdeild þar sem ungmenni voru frædd um Rauða krossinn, fordóma, viðhorf og virðingu. Vetvangur vinnuskólanna er mjög góður til að koma á fræðslu af þessu tagi, þar sem að hægt er að ná til svo margra ungmenna.

Göngum til góðs
Allar deildir á Norðurlandi tóku þátt og Gengu til góðs í október. Söfnunin gekk í heild ágætlega og sjálfboðaliðum vel tekið, en söfnunarfé heldur minna en undanfarin ár.

Athvörf fyrir fólk með geðraskanir - Lautin og Setrið

Setrið á Húsavík flutti í annað og stærra húsnæði á árinu. Auðveldar það allt starf til muna og gefur um leið meiri möguleika á fjölbreytni í starfi. Laut á Akureyri var rekin með svipuðu sniði og áður og sjá sjálfboðaliðar um að halda opnu á laugardögum. Góð aðsókn er að báðum þessum stöðum sem sýnir að starfsemin stendur vel fyrir sínu.

Fjölsmiðjan
Fjölsmiðjan á Akureyri var formlega opnuð eftir endurbætur á húsnæðinu 8. mars á sl. ári og hefur rekstur hennar vaxið og dafnað síðan. Um er að ræða atvinnutengt úrræði fyrir ungt fólk á aldrinum 14 - 25 ára. Boðið er uppá ýmsa þjónustu, s.s. þrif á bílum, nytjamarkað, mötuneyti og mörg önnur þjónusta sem stendur fyrirtækjum og einstaklingum til boða.

Skyndihjálparhópur
Starfsemi skyndihjálparhópsins var kraftmikil á árinu og tók hluti hópsins þátt í árlegri keppni skyndihjálparhópa víðsvegar úr Evrópu. Keppnin fór fram í Liverpool í júní. Þátttaka í svona keppni kallar á mikinn undirbúning sem unninn var með glöðu geði. Hittust þáttakendur reglulega og æfðu sig. Þjálfunin fór að mestu fram í húsnæði Akureyrardeildar og hjá Slökkviliði Akureyrar, en einnig kom hópurinn tvisvar saman á Narfastöðum í Reykjadal og dvaldi yfir nótt í hvort skipti og áttu saman góðar stundir við leik og störf.

Viðbrögð vegna efnahagshruns

Strax í upphafi efnahagshrunsins voru víða settar á stofn nefndir sem skipaðar voru aðilum frá sveitarfélögum, öðrum opinberum aðilum og félagasamtökum á Norðurlandi. Eiga Rauða kross deildir fulltrúa þar inni.

Deildir hafa boðið uppá námskeið í sálrænum stuðningi, bæði fyrir almenning og sérstaka hópa fólks sem atvinnu sinnar vegna þarf á stuðningi að halda. Opið hús fyrir atvinnulausa var sett á laggirnar á Húsavík í desember og er deild Rauða krossins þar virk í starfinu þar. Flestar deildir á Norðurlandi veittu neyðaraðstoð til fjölskyldna og einstaklinga fyrir jólin og var um töluverða aukningu að ræða á milli ára.