Lifað og leikið á Löngumýri

22. jún. 2009

Sumarbúðir Rauða krossins fyrir fatlaða einstaklinga sem haldnar eru á Löngumýri og í Stykkishólmi byrjuðu sitt fyrsta tímabil um síðustu helgi í Skagafirðinum. Þær eru haldnar 11. árið í röð á Löngumýri en 5. sumarið í Stykkishólmi. Karl Lúðvíksson hefur verið sumarbúðastjóri á Löngumýri frá upphafi en Gunnar Svanlaugsson er við stjórnvölinn í Stykkishólmi. Fullbókað er á öll tímabilin en um 60 þátttakendur munu sækja sumarbúðirnar í sumar.

Dagskráin er fjölbreytt. Auk skoðunarferða er farið á hestbak, í flúðasiglingar og sjóstangaveiði, golf, júdó, leiki og kennd er skyndihjálp, auk fræðslu um Rauða krossinn. Flesta daga er farið í sund og kvöldvaka með þátttöku sumarbúðagesta hvert kvöld.

Eðvarð Sigurjónsson hefur sótt sumarbúðirnar á Löngumýri á hverju ári frá 2005. „Það er gaman að vera hérna í sumarbúðunum, að hitta vini sem hafa heimsótt búðirnar og einnig er gaman að hitta nýtt fólk sem margir verða áfram í sambandi við mig.“ Eðvarð vinnur dagsdaglega í Nettó í Reykjanesbæ. „Það er mikið að gera í kerrustarfinu og er það því kærkomið að komast á svo skemmtilegan stað í sumarfríinu.“

Til liðs við starfsfólk sumarbúðanna komu þessa vikuna tveir starfsmenn landsskrifstofu sem byrjuðu sumarfríið sitt sem sjálfboðaliðar eins og svo oft áður. Karl segist mjög ánægður með slíkar heimsóknir enda eitt af markmiðum búðanna að kynnast sem flestum og eiga uppbyggilegar og skemmtilegar stundir saman til að bæta við og auðga þær minningar sem þátttakendur taka síðan með sér til baka. „Er það ómissandi partur af sumartímanum að kíkja við á Löngumýri og upplifa einstaktlega lærdómsríkt og skemmtilegt starf sem þar fer fram,“ segja Gulla og Imma.