Svæðisfundur deilda á Norðurlandi

1. okt. 2009

Svæðisfundur deilda á Norðurlandi var haldinn á Hvammstanga á laugardaginn. Fulltrúar frá níu deildum af tólf mættu á fundinn en þeir áttu um mislanga vegi að fara og vetur konungur minnti á sig og sýndi sinn hvíta lit á heiðum.
 
Á fundinum var samþykkt verkefnaáætlun svæðisins næstu fjögur árin auk fjárhagsáætlunar komandi árs.
 
Þær breytingar voru gerðar á svæðisráði að samþykkt var að fjölga fulltrúum í ráðinu úr þremur í fimm. Guðrún Matthíasdóttir lét af störfum en hún hefur gegnt formennsku frá síðasta fundi og tekur Ingólfur Freysson Húsavíkurdeild við af henni. Einnig situr Páll Sverrisson Akureyrardeild í svæðisráði og nýir fulltrúar eru þau Ólafía Lárusdóttir Skagastrandardeild og Gunnar Jóhannesson Skagafjarðardeild frá vestursvæði og Margrét Guðmundsdóttir Siglufjarðardeild frá austursvæði. Framvegis mun Akureyrardeild vera eitt svæði og eiga fasta fulltrúa í svæðisráði.
 
Gunnar Frímannsson og Jón Þorsteinn Sigurðsson mættu fyrir hönd stjórnar Rauða kross Íslands, Örn Ragnarsson kynnti fataflokkunina og sagði frá fatasöfnunarátakinu sem nú stendur yfir og Þórir Guðmundsson sviðsstjóri alþjóðasviðs sagði frá alþjóðastarfi.