Ertu til þegar á reynir?

13. okt. 2009

Nú stendur yfir Rauðakrossvikan dagana 12. -17. október. Deildir um land allt eru með metnaðarfullar kynningardagskrár. Kynningarstarfið nær hámarki laugardaginn 17. Markmið með Rauðakrossvikunni er að safna sérstökum sjálfboðaliðum til aðstoðar á tímum áfalla. Þessi Liðsauki gerir Rauða krossinn færari til að bregðast við á neyðartímum. Sjálfboðaliðar Rauða krossins vinna ómetanlegt starf við að aðstoða þá sem eru hjálparþurfi.

Hverjir geta orðið sjálfboðaliðar?

Leitað er að fólki (18 ára og eldri) með mismunandi bakgrunn sem hefur áhuga á mannlegum samskiptum og vill rétta þolendum áfalla hjálparhönd. Verkefnin eru margvísleg en eiga það sameiginlegt að þurfa sjálfboðaliða tafarlaust, meðal annars til að veita skyndihjálp, skrá upplýsingar, elda mat eða túlka af erlendum tungumálum. Það er  Rauða krossinum ómetanlegt að geta leitað til fólks sem hefur gefið kost á sér fyrirfram og er reiðubúið að nýta reynslu sína og þekkingu í þágu þolenda áfalla.

Dæmi um verkefni sjálfboðaliða: Svara í síma og veita upplýsingar, barnapössun og umönnun, skyndihjálp, skrá niður upplýsingar, sálrænn stuðningur, útbúa mat og túlka af erlendum tungumálum.

Neyðaraðstoð Rauða krossins er ekki einungis bundin við náttúruhamfarir og stærri atburði heldur snýr hún einnig að því að aðstoða fólk sem verður fyrir bruna í íbúðarhúsi eða lendir í slysi. Verkefnin eru jafn fjölbreytt og aðstæðurnar sem við lendum í.

Dagskrá vikunnar

Hægt er að skrá sig sem Liðsauki hér

Verkefni Rauða krossins sem tengjast viðbrögðum við áföllum


Neyðarvarnir - Rauði kross Íslands veitir fjöldahjálp á hættu- og neyðartímum. Hundruð sérþjálfaðra sjálfboðaliða eru tilbúnir að tryggja velferð almennings í kjölfar slysa, náttúruhamfara og annarra alvarlegra atburða. Fyrstu verkefni Rauða krossins eru jafnan að sjá þolendum fyrir helstu nauðsynjum á borð við fæði, klæði og húsaskjól. Sú aðstoð fer oftast fram í fjöldahjálparstöðvum sem staðsettar eru um allt land. Einnig veitir Rauði krossinn þolendum ráðgjöf um þau úrræði sem þeim bjóðast í kjölfar alvarlegra atburða.

Skyndihjálp - Rauði kross Íslands hefur gegnt forystuhlutverki í skyndihjálp á Íslandi. Á neyðartímum veita sjálfboðaliðar Rauða krossins þolendum almenna skyndihjálp ef álagið er of mikið á heilbrigðiskerfið. Einnig veita sérstakir skyndihjálparhópar aðstoð á samkomum og mannamótum.

Sálrænn stuðningur - Slys, hamfarir og aðrir alvarlegir atburðir geta ekki aðeins valdið líkamlegu tjóni heldur einnig sálrænum erfiðleikum. Við slíkar aðstæður veita sérþjálfarðir sjálfboðaliðar Rauða krossins sálrænan stuðning eða áfallahjálp sem miðast við að hjálpa þolendum áfalla að takast á við aðstæður.

Á neyðartímum gegnir áfallahjálparteymi Rauða krossins veigamiklu hlutverki í almannavörnum með því að veita þolendum einstaklings- eða hópviðtöl, upplýsingar og fræðslu. Auk þess veitir Rauði krossinn almenningi, fagfólki og sveitafélögum stuðning og ráðgjöf.

Hjálparsími Rauða krossins 1717 - Á hættu- og neyðartímum verður Hjálparsími Rauða krossins að upplýsingasíma almannavarna um leið og hann gegnir venjubundnu hlutverki sem úrræði fyrir þá sem líður illa eða þarfnast aðstoðar.

Rauðakrosshúsið - Rauðakrosshúsið er miðstöð fyrir fólk sem orðið hefur fyrir áföllum vegna efnahagsþrenginga. Starf Rauðakrosshússins er byggt á áralangri reynslu félagsins af viðbrögðum í neyð. Þar geta einstaklingar og fjölskyldur sótt sér sálrænan stuðning og ráðgjöf um þau úrræði sem bjóðast í samfélaginu. Einnig er í boði ýmis konar fræðsla og félagsstaf sem er opið öllum. Sjálfboðaliðar bera starfið uppi og hafa þeir margir mikla reynslu sem nýtist vel í Rauðakrosshúsinu.

Stöndum saman og leggjum okkar af mörkum til að tryggja skjót viðbrögð við áföllum. Þú getur lagt Rauða krossinum lið í starfi sem miðar að því að auka mannúð og bæta samfélag okkar.