Ólafsfjarðardeild Rauða krossins komin í nýtt húsnæði

2. feb. 2012

Um miðjan desember flutti Ólafsfjarðardeild Rauða krossins í nýtt húsnæði að Aðalgötu 1. Deildin hefur undanfarin ár verið með aðstöðu í Slysavarnarhúsinu Sandhól við Strandgötu.

Þar sem starfsemi deildarinnar hefur aukist töluvert undanfarna mánuði fannst stjórninni kominn tími á að finna ný húsakynni undir starfsemina. Helstu ástæður fyrir flutningnum voru að aðstaða var orðin heldur lítil undir vinnu við pökkun ungbarnapakka sem sendir eru til Hvíta Rússlands. Einnig skapast nú aðstaða fyrir félagsmenn sem vinna að verkefnum við föt sem framlög s.s. að prjóna, hekla og vera saman. Síðast en ekki síst er nú góð aðstaða fyrir fundi og námskeið auk þess sem aðgengi að húsnæðinu er mun betra.

Starfsemi deildarinnar hefur verið mjög öflug undanfarið þar sem fatasöfnun er stærsti fasti liðurinn í starfinu. En fatagámur hefur verið staðsettur á gámsvæði Ólafsfjarðar síðustu tvö ár. Óhætt er að segja að bæjarbúar séu duglegir að skila fatnaði til Rauða krossins og er verið að senda 4-6 bretti í mánuði suður til höfuðstöðvanna.

Í haust sendi deildin einn félagsmann á leiðbeinendanámskeið í skyndihjálp og var haldið námskeið 27.-28. janúar.

Þrír úr stjórn félagsins eru þessa dagana að sækja námskeið í First Responder og þegar þetta er skrifað er fyrri lotu í námskeiðinu lokið. Seinni hlutinn er svo 10.-12. febrúar þar sem lotan endar með verklegu og bóklegu prófi.

Framundan er svo aðalfundur deildarinnar sem verður 9. febrúar kl. 20:00 og skorar stjórnin á alla félagsmenn að mæta og áhugasama að kynna sér starfsemi Rauða krossins.