Fjölmargar nýjar heimsóknir hundavina á síðustu mánuðum

14. des. 2009

Frá því í september hafa fjölmargar nýjar heimsóknir hafist þar sem heimsóknavinir Kópavogsdeildar heimsækja með hunda sína. Í september hófst heimsókn í fangelsið í Kópavogi og er það í fyrsta skipti sem hundur heimsækir þangað. Eigandi hans fer með hann einu sinni í viku í fangelsið og fá vistmennirnir að njóta félagsskapar þeirra. Þá hófust tvær heimsóknir á hjúkrunarheimilið Grund og skiptast tveir heimsóknavinir á að heimsækja heimilið og fær heimilisfólkið því heimsókn frá hundi einu sinni í viku.

Dvöl, athvarf fyrir fólk með geðraskanir, fékk aftur til sín hund í október eftir nokkurt hlé og gleður hann gesti athvarfsins vikulega með nærveru sinni. Í lok nóvember fór svo fyrsti hundurinn í heimsókn með eiganda sínum á líknardeildina í Kópavogi. Sá hundur er kóngapúðli og heitir Charly. Á meðan heimsóknavinurinn ræðir við fólkið á deildinni getur það klappað og knúsað Charly. Heimsóknavinir með hunda heimsækja þó ekki bara stofnanir heldur líka einkaheimili og hófst ein slík heimsókn á dögunum. Þá fer heimsóknavinurinn og hundurinn með gestgjafa sínum út að ganga. Nýjasta heimsóknin hófst svo í síðustu viku en labrador að nafni Óðinn heimsækir Hrafnistu í Reykjavík með eiganda sínum. 

Heimsóknir með hunda hófust hjá Rauða krossinum árið 2006 og hafa reynst mjög vel. Hundarnir virka sem góðir ísbrjótar og veita gestgjöfum sína mikla gleði og hlýju. Sjálfboðaliðar sem heimsækja með hunda sína fá fræðslu fyrir heimsóknavini og um heimsóknir með hunda áður en lagt er af stað í fyrstu heimsóknina. Skapgerð hundanna og viðbrögð við ýmsum aðstæðum er líka metið fyrir heimsóknir.

Þeir sem hafa áhuga á að gerast heimsóknavinir með hund eða fá til sín heimsókn hundar og heimsóknavinar geta haft samband við deildina í síma 554 6626 eða með tölvupósti á kopavogur@redcross.is.