Gott ár hjá sjálfboðaliðunum í verkefninu Föt sem framlag

17. des. 2009

Í ár útbjuggu sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag 637 fatapakka með ungbarnafötum sem síðan voru sendir til fjölskyldna og barna í neyð. Pakkarnir fara venjulega til Malaví en stór hluti af afrakstrinum á þessu ári fór til Hvíta-Rússlands núna í desember þar sem Rauða krossi Íslands hafði í nóvember borist neyðarbeiðni frá Rauða krossinum þar í landi. Tvö þúsund pakkar voru sendir til Hvíta-Rússlands að þessu sinni.

Í ungbarnapökkunum eru prjónaðir sokkar, húfur, peysur og bleyjubuxur auk taubleyja, handklæðis, buxna, treyju og samfellna. Sjálfboðaliðar deildarinnar hittast einu sinni í mánuði í prjónakaffi í sjálfboðamiðstöðinni og fá þá garn til að prjóna úr. Þeir sem hafa áhuga á að taka þátt í verkefninu geta haft samband við deildina í síma 554 6626, á netfangið kopavogur@redcross.is eða mætt í næsta prjónakaffi sem verður haldið miðvikudaginn 27. janúar 2010.