Laus pláss á námskeiðið Börn og umhverfi

9. apr. 2010

Deildin heldur þrjú Börn og umhverfi námskeið í maí og júní. Það fyrsta er 3.-6. maí, annað er 17.-20. maí og það þriðja 31. maí til 3. júní. Enn eru laus pláss á námskeiðin og hægt er að skrá sig með því að smella hér.  

Námskeiðin eru ætluð ungmennum á 12. aldursári eða eldri sem gæta yngri barna. Farið er í ýmsa þætti er varða umgengni og framkomu við börn. Rætt er um árangursrík samskipti, aga, umönnun og hollar lífsvenjur, leiki og leikföng. Lögð er áhersla á umfjöllun um slysavarnir og algengar slysabætur í umhverfinu ásamt ítarlegri kennslu í skyndihjálp. Að auki fá þátttakendur innsýn í sögu og starf Rauða krossins.

Námskeiðið er sextán kennslustundir og kennslan skiptist á fjögur kvöld. Í lokin fá þátttakendur litla skyndihjálpartösku að gjöf og viðurkenningarskjal til staðfestingar um þátttöku. Leiðbeinendur eru leikskólakennarar og hjúkrunarfræðingar.

Það er engin vafi á því að þessi námskeið geta gert gæfumuninn varðandi réttu viðbrögðin í skyndihjálp og varðandi það hvort viðkomandi fær starf eða ekki við barnagæslu. Námskeiðin nýtast þátttakendum líka dagsdaglega í lífinu heima fyrir, innan stórfjölskyldunnar og meðal vina.