Undirbúningur fyrir handverksmarkað í fullum gangi

15. apr. 2010

Undirbúningur fyrir handverksmarkaðinn sem haldinn verður hjá Kópavogsdeild á laugardaginn gengur vel. Í síðustu viku föndruðu Enter-krakkarnir lyklakippur úr þæfðri ull og skemmtu sér vel við það. Í dag taka svo Eldhugarnir til við að búa til brjóstsykur líkt og þeir hafa gert fyrir undanfarna markaði. Á morgun mæta svo nemendur úr Menntaskólanum í Kópavogi til þess að setja upp markaðinn og verðmerkja en markaðurinn og umsjón hans er lokaverkefni þeirra í áfanganum um sjálfboðið starf. Auk þess munu nemendurnir útbúa veglegar kökukræsingar til að selja á markaðinum.

Markaðurinn verður haldinn í sjálfboðmiðstöð Kópavogsdeildar Rauða krossins í Hamraborg 11, 2. hæð, laugardaginn 17. apríl kl. 11-16. Allur ágóði rennur til styrktar verkefnum innanlands.