Einingarnar bara bónus

Sólveigu á Fréttablaðinu

19. apr. 2010

Kópavogsdeild Rauða krossins hélt handverksmarkað á laugardaginn. Markaðurinn er lokaverkefni nemenda sem sitja áfanga um sjálfboðið Rauða kross-starf í MK. Greinin birtist í Fréttablaðinu laugardaginn 17. apríl sl.

Magnús Friðrik Guðrúnarson er einn þeirra sem taka þátt í áfanganum Sjá 102 í Menntaskólanum í Kópavogi og líkar stórvel. Þar geta nemendur valið úr ýmsum sjálfboðaliðaverkefnum líkt og starfi með fólki með geðraskanir, starfi með langveikum börnum, að aðstoða jafningja og vinna með ungum innflytjendum.

Magnús hafði engan sérstakan áhuga á sjálfboðastarfi áður en hann byrjaði á áfanganum. „Áhuginn hefur hins vegar aukist mikið og ég er mjög glaður yfir að hafa tekið þennan áfanga," segir Magnús sem fer tvisvar í viku og hjálpar til í athvarfinu Dvöl - fyrir fólk með geðraskanir. Aðeins er ætlast til að Magnús verji klukkutíma á staðnum í hvert sinn en hann segist yfirleitt vera þar í minnst fjóra tíma. „Ég hjálpa til við það sem þarf, vaska upp og tala við fólkið sem hefur frá mörgu áhugaverðu að segja," segir Magnús sem er vinsæll meðal fólksins á Dvöl enda hefur hann jafnan harmonikuna sína meðferðis og grípur í hana þegar færi gefst. „Við syngjum oftast skemmtilega útilegusöngva," segir hann glaðlega og bætir við að flestir taki undir í söngnum.

Magnús stefnir á að taka aftur áfangann á haustönn því honum þykir verkefnið svo skemmtilegt. „Einingarnar eru bara bónus," segir hann og mælir með áfanganum við alla nemendur MK.

Lokaverkefni nemenda í áfanganum Sjá 102 er að halda handverksmarkaðinn. Þar var til sölu fjölbreytt handverk sjálfboðaliða líkt og prjónavörur, bakkelsi og einnig handverk frá vinadeild Kópavogsdeildar í Mósambík. Allur ágóði rennur til verkefna Rauða krossins innanlands.