Textíll til góðs í Salaskóla

26. apr. 2010

Nokkrir nemendur úr Salaskóla færðu Kópavogsdeild gjöf á dögunum er þeir afhentu fatnað sem þeir útbjuggu í valáfanga í skólanum sem kallast ,,Textíll til góðs“. Nemendurnir prjónuðu og saumuðu svo sannarlega til góðs í samstarfi við deildina. Þeir prjónuðu ungbarnahúfur ásamt því að sauma teppi, peysur og buxur. Afraksturinn fer síðan í svokallaða ungbarnapakka sem deildin sendir til barna í neyð erlendis. Pakkar sem deildin hefur sent frá sér hafa farið til Malaví, Gambíu og Hvíta-Rússlands.

Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag sjá að mestu um að útbúa föt í pakkana en gjafir af þessu tagi eru kærkomnar. Hver pakki inniheldur prjónaða peysu, teppi, húfu, sokka og bleyjubuxur ásamt handklæði, samfellum, taubleyjum, buxum og treyju.

Kópavogsdeild þakkar Salaskóla fyrir frábært framtak og nemendunum fyrir þeirra vinnu.