Sjálfboðaliðar hreinsa til við bæina undir Eyjafjöllum

26. apr. 2010

Á fimmta tug sjálfboðaliða Rauða krossins brást við með stuttum fyrirvara þegar leitað var til þeirra um aðstoð við hreinsunarstörf í gær við bæina undir Eyjafjöllum sem urðu hvað verst úti í öskufallinu vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Verkefnin fólust helst í að hreinsa ösku í kringum íbúðarhús og í görðum eða hvað annað sem bændur óskuðu eftir.

Óhætt er að segja að mikið verk blasti við hreinsunarfólki þegar það mætti á svæðið en það var ólýsanleg ánægja að sjá umhverfið lýsast upp og grænka þegar öskuleðjunni var mokað og sópað í burtu. Þakklæti heimamanna var svo stærsta umbunin og dagsverkið með því mest gefandi sem sjálfboðaliðar hafa færi á að takast á við.

Skipulagi var stýrt frá þjónustumiðstöðinni sem staðsett  er í Heimalandi. Þar fengu sjálfboðaliðar einnig hádegismat til að halda kröftum við erfiðisverkin fram eftir degi.

Boð voru send til fjöldahjálparstjóra og allra liðsauka sem búsettir á höfuðborgarsvæðinu. Liðsaukar eru þeir sem gengu til liðs við Rauða krossinn í Rauðakrossvikunni í október síðastliðinn og eru til taks þegar á reynir og þörf er á miklum mannskap á neyðartímum. Þetta er í fyrsta sinn sem leitað er til þessa hóps, enda ærið tilefni til.

Á annað hundrað sjálfboðaliðar tóku þátt í hreinsunarverkefninu undir Eyjafjöllunum. Auk Rauða krossins voru þar félagar í 4x4 jeppaklúbbnum og björgunarsveitunum, og eins fólk sem safnaði liði á Fésbókinni.

Fleiri myndir á Fésbókinni