AUS skiptinemi í Dvöl

29. apr. 2010

Á þeim árum sem Dvöl hefur starfað hafa nokkrir skiptinemar á vegum AUS, sem eru alþjóðleg skiptanemasamtök, verið þar. Þetta hefur mælst vel fyrir meðal gesta og aukahönd er vel þegin af starfsfólki. Nú í byrjun apríl kom til Dvalar stúlka frá Slóvakíu sem heitir Ráchel Kovácová. Hún er 24 ára gömul og sálfræðingur að mennt. Hún verður í Dvöl þangað til í desember á þessu ári.

Ráchel segir: ,,Ég er mjög hrifin af Íslandi, náttúran er ofsalega falleg og svolítið villtari en í Slóvakíu. Fólkið á Íslandi er mjög lífsglatt og allir hafa tekið mér opnum örmum, sem ég kann vel að meta. Það er frábært hvað Íslendingar tala góða ensku, því þá er auðvelt að fá upplýsingar og eiga samskipti. Ég er samt búin að læra nokkur orð í íslensku og mun fara á íslenskunámskeið í sumar þar sem ég vonast eftir að læra svolítið meira. Ég bý í Mosfellsbænum og finnst andrúmsloftið þar mjög afslappað og gott. Það á mjög vel við mig að búa í litlu bæjarfélagi því það minnir mig á heimabæ minn Nesvady sem er 5000 manna bær. Ég vonast til að geta ferðast aðeins um Ísland í sumar og skoðað þetta fallega land.  
 
Það er yndislegt að vera í Dvöl. Þar ríkir fjölskylduandrúmsloft og húsið er rosalega hlýlegt. Náttúran í kring er líka mjög falleg. Prjónaskapur er í hávegum hafður í Dvöl og ég er nú þegar búin að læra að prjóna, aðeins á einum mánuði. Mér finnst íslenska lopapeysan falleg og vonast til að geta prjónað mér eina slíka áður en ég fer aftur heim til Slóvakíu. Það var ofsalega vel tekið á móti mér í Dvöl og ég held að reynsla mín þar muni kenna mér margt í samskiptum og opna mig. Ég held að vera mín þar muni veita mér innblástur þegar kemur að því að ég vel mér braut í starfi mínu í framtíðinni.”