Alþjóðadagur Rauða krossins

8. maí 2010

Í dag, 8. maí, er alþjóðadagur Rauða krossins. Dagurinn er fæðingardagur stofnanda hreyfingarinnar, Henry Dunants, og er fyrst og fremst helgaður öllum þeim fjölda sjálfboðaliða sem vinna fyrir Rauða krossinn og Rauða hálfmánann um heim allan. Sjálfboðaliðar hreyfingarinnar vinna mörg og ólík verkefni en alltaf með sömu hugsjónir og markmið að leiðarljósi.

Hreyfingin spratt upp af löngun til að veita þeim sem særst höfðu á orrustuvelli hjálp án manngreinarálits og reynir með alþjóðlegu starfi og starfi landsfélaga, eins og Rauða krossi Íslands, að koma í veg fyrir og lina þjáningar fólks hvar sem það er statt. Tilgangur hreyfingarinnar er að vernda líf og heilsu og tryggja virðingu fyrir mannlegu lífi. Hún vinnur að gagnkvæmum skilningi, vináttu, samstarfi og varanlegum friði meðal allra þjóða.

Sjálfboðaliðum Kópavogsdeildar Rauða krossins hefur fjölgað ört á síðustu árum og eru af báðum kynjum og á ýmsum aldri og vinna að margvíslegum verkefnum. Deildin býður upp á fjölbreytt verkefni og tekur mið af þörfum samfélagsins hverju sinni í verkefnavali sínu. Þá hefur deildin ávallt verið óhrædd við að takast á við ný og krefjandi verkefni. Ungmennastarf deildarinnar er vaxandi verkefni og er afar ánægjulegt að fylgjast með unga fólkinu að störfum. Plúsinn er sérhannaður vettvangur fyrir fólk á aldrinum 16–24 ára til þess að taka þátt í sjálfboðnu starfi og hafa áhrif á samfélagið sitt með ýmsum hætti, með markmið og hugsjónir Rauða krossins að leiðarljósi.

Verkefni sem miða sérstaklega að því að auka lífsgæði, draga úr einsemd og félagslegri einangrun fólks eru deildinni sérstaklega hugleikin. Yfir 120 sjálfboðaliðar taka þátt í heimsóknaþjónustu, starfi Dvalar, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir og Alþjóðlegum foreldrum.

Kópavogsdeild sendir félögum  í Rauða krossinum sínar bestu óskir í tilefni af alþjóðadegi hreyfingarinnar, óskar þeim farsældar í starfi og vonar að sjálfboðið starf innan Rauða krossins haldi áfram að vaxa og dafna.

Deildin býður nýja sjálfboðaliða velkomna til starfa og minnir á að það er gefandi og gaman að vera í Rauða krossinum.