Eldhugar taka þátt í Kópavogsdögum

11. maí 2010

Sýning á ljósmyndum úr ljósmyndasamkeppni Eldhuga, 13-16 ára unglinga úr ungmennastarfi Kópavogsdeildar, stendur nú yfir í anddyri þjónustuvers bæjarskrifstofu Kópavogs, að Fannborg 2, 1. hæð. Tilefnið er Kópavogsdagar og fellur sýningin undir menningu barna og ungmenna. Yfirskrift ljósmyndasamkeppninnar var „Fjölbreytni og fordómar" og markmiðið með henni var að vekja fólk til umhugsunar um fordóma í samfélaginu. Deildinni bárust margar myndir og á sýningunni má skoða myndirnar sem komust í efstu sætin.

Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 ára af íslenskum og erlendum uppruna sem hittast í sjálfboðamiðstöðinni á fimmtudögum kl. 17.30-19.00. Þar vinna krakkarnir með ýmis verkefni og miða að því að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma. Verkefnið miðar auk þess ekki síst til að skapa grundvöll fyrir unglinga alls staðar að úr Kópavogi til að hittast, hafa gaman saman og kynnast.