Fjöldi framhaldsskólanemenda nýtti sér ókeypis námsaðstoð

12. maí 2010

Kópavogsdeild bauð upp á ókeypis námsaðstoð fyrir fólk á framhaldsskólaaldri  nú yfir prófatímann í samstarfi við Molann, ungmennahús Kópavogs. Molinn heldur úti opinni lesaðstöðu fyrir nemendur alla virka daga frá miðjum apríl en einu sinni í viku voru sjálfboðaliðar frá Kópavogsdeild, sem búa yfir góðri þekkingu í stærðfræði, á staðnum. Auk þess gátu nemendur óskað eftir aðstoð í öðrum fögum. Tilgangur verkefnisins er að sporna gegn brottfalli nemenda úr námi með því að veita þeim sérstaka aðstoð yfir prófatímann. Námsaðstoðin hlaut mjög góðar móttökur líkt og áður. Mæting nemenda í lesverið jókst til muna og fjöldi nemenda mætti í hvert sinn í beinum tilgangi að nýta sér leiðsögn sjálfboðaliðanna.

Utan hinnar hefðbundnu námsaðstoðar yfir prófatímann eru síðan starfræktir ,,Námsvinahópar” úr ungmennastarfi Plússins, sem einnig hittast í Molanum. Þeir sem gerast sjálfboðaliðar í því verkefni gerast þá námsvinir jafningja og hóparnir hittast reglulega yfri veturinn. Því verkefni er ekki síst ætlað að brjóta félagslega múra og skapa vettvang fyrir nemendur af erlendu bergi brotnu til að fá leiðsögn íslenskra samnemenda í gegnum nám sitt.

Kópavogsdeild sér fram á áframhald þessa verkefnis næsta vetur og þakkar hér með sjálfboðaliðum og samstarfsaðilum kærlega fyrir þeirra framlag.