Samstarfssamningur um neyðarvarnir á höfuðborgarsvæðinu

18. maí 2010

Á aðalfundi Rauða kross Íslands sem haldinn var í Reykjavík þann 15. maí síðastliðinn var endurnýjaður samningur deilda á höfuðborgarsvæði varðandi neyðarvarnir. Deildir á höfuðborgarsvæði skrifuðu fyrst undir slíkan samning fyrir fimm árum með það að markmiði að efla samvinnu deildanna svo þær geti betur brugðist við neyðarástandi á svæðinu. Nokkrar breytingar voru gerðar frá fyrri samningi og má þar helst nefna stofnun skyndihjálparhóps sem mun meðal annars hafa það hlutverk að efla og kynna skyndihjálp á svæðinu.

Deildirnar og sjálfboðaliðar þeirra eru reiðubúnir til þess að leggja fram krafta sína ef til neyðarástands kemur vegna náttúruhamfara eða af öðrum ástæðum. Sjálfboðaliðarnir vinna að neyðarvörnum samkvæmt neyðarvarnaskipulagi Rauða krossins, opna fjöldahjálparstöðvar í skólum og veita þar ýmsa aðstoð og aðhlynningu.

Á neyðarvarnaáætlunum deildanna eru skráðir einstaklingar sem eru tilbúnir að bregðast við ef á þarf að halda. Fjöldahjálparstjórar, sem þjálfaðir eru í neyðarvörnum, gegna þar lykilhlutverki ásamt öðrum sjálfboðaliðum, auk fagfólks, presta og starfsfólks skóla. Neyðarnefnd höfuðborgarsvæðis hefur umsjón með skipulagi neyðarvarna á vegum deildanna.