Nemendur í Kársnesskóla styrkja Föt sem framlag

17. maí 2010

Í dag tók Kópavogsdeild Rauða krossins við góðu framlagi frá Kársnesskóla til verkefnisins Föt sem framlag við mikla athöfn en nemendur í lífsleikni í 9. bekk höfðu unnið að því að sauma og prjóna föt í allan vetur. Afraksturinn lét ekki á sér standa þar sem nemendurnir afhentu deildinni um 200 flíkur í heildina sem munu verða sendar til barna og fjölskyldna í neyð erlendis. Pakkar með flíkum sem deildin hefur sent frá sér hafa farið til Malaví, Gambíu og Hvíta-Rússlands. Hver pakki inniheldur prjónaða peysu, teppi, húfu, sokka og bleyjubuxur ásamt handklæði, samfellum, taubleyjum, buxum og treyju.

Auk þess að hafa saumað og prjónað allan þennan fatnað höfðu nemendurnir unnið að gerð fyrirlesturs um Malaví, fengið kynningu á verkefnum Kópavogsdeildar og þá sérstaklega því verkefni sem þau voru að vinna að í þágu deildarinnar. Þá hafði kórinn æft sérstaklega lög frá Afríku sem sungin voru við athöfnina og kennarar og skólastjóri héldu einnig erindi um verkefnið. Allir nemendur unglingastigs, auk fjölmiðla og annarra gesta sátu athöfnina og góð stemning myndaðist fyrir vikið.

Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir, formaður deildarinnar, veitti fatnaðinum viðtöku og hélt tölu þar sem hún færði hópnum og skólanum viðurkenningu og miklar þakkir fyrir framlagið. Þá notaði hún tilefnið til að nefna hversu mikið af efnilegu ungu fólki hefur ratað inn í starf deildarinnar í gegnum tíðina en margir af ungum sjálfboðaliðum og unglingum úr ungmennastarfi deildarinnar hafa verið nemendur úr Kársnesskóla.

Kópavogsdeild færir Kársnesskóla bestu þakkir fyrir frábært starf í þágu barna og fjölskyldna í neyð og hlakkar til að eiga áframhaldandi samstarf af þessu tagi við skólana Kópavogi.