Sjálfboðaliðar kynntu verkefni deildarinnar á aðalfundi Rauða kross Íslands

18. maí 2010

Á aðalfundi Rauða kross Íslands 15. maí síðastliðinn kynntu sjálfboðaliðar deildarinnar verkefni hennar. Kynningarbásarnir voru þrír og kynntu sjálfboðaliðarnir Alþjóðlega foreldra, ungmennastarfið og heimsóknir með hunda. Þurý Ósk Axelsdóttir sá um að segja fundargestum frá alþjóðlegu foreldrunum, Sæunn Gísladóttir úr Plúsnum sá um ungmennastarfið og Njála Vídalín, heimsóknavinur með hundinn Lottu, kynnti starf hundavina. Fundargestir gátu fengið sér bæklinga um verkefnin og skoðað myndir úr starfinu.

Þá var Dögg Guðmundsdóttir, verkefnastjóri sjálfboðamiðstöðvarinnar, með erindi á málstofu um viðbrögð deilda við breyttu efnahagsástandi. Hún kynnti sérstaklega verkefnið Nýttu tímann en einnig samstarf deildarinnar við Mæðrastyrksnefnd Kópavogs  sem og námsaðstoð fyrir framhaldsskólanemendur til að hindra brottfall úr námi.