Vorferð barna og unglinga

19. maí 2010

Á uppstigningardag héldu börn og ungmenni sem tekið hafa þátt í Rauða kross starfi deildanna á höfuðborgarsvæðinu í sína árlegu vorferð en um 20 börn auk 4 sjálfboðaliða frá Kópavogsdeild tóku þátt í ferðinni að þessu sinni. Hópurinn frá Kópavogsdeild var mjög fjölþjóðlegur eða frá 6 þjóðlöndum.

Ferðinni var heitið út í Viðey og þar tók Guðlaug Elísabet Ólafsdóttir á móti hópnum og kynnti staðarhætti. Þar er margt forvitnilegt að sjá og vel hægt að eyða löngum tíma í að spóka sig í göngutúrum um þessa fallegu eyju. Þegar Guðlaug lauk sínu máli var komið að ratleikjum. Eldri krakkarnir spreyttu sig í skyndihjálp og þrautum tengdum henni en yngri krakkarnir reyndu á kunnáttu sína um Rauða krossinn, þar sem grundvallarmarkmiðin skipuðu stóran sess. Eftir að hópurinn hafði hlaupið um eyjuna þvera og endilanga í leit að vísbendingum var komið að því að gæða sér á pylsum sem runnu ljúflega niður í svanga maga. Þá var ekki seinna vænna en að bregða á leik áður en bátnum var náð og aftur siglt heim á leið.

Tilgangur vorferðanna er að gefa börnum og unglingum í Rauða kross verkefnum á höfuðborgarsvæðinu tækifæri að hittast og kynnast sín á milli. Öllum þeim sem hug hafa á að kynna sér barna og ungmennastarf deildarinnar nánar og/eða gerast sjálfboðaliðar er velkomið að hafa samband í síma 544 6626 eða á kopavogur@redcross.is.