Eldhugablaðið „Eldhuginn Magazine” er komið út!

21. maí 2010

Í gær héldu Eldhugar útgáfuteiti í tilefni útgáfu Eldhugablaðsins sem ber titilinn „Eldhugar Magazine”. Teitið var haldið á landsskrifstofu Rauða kross Íslands og heppnaðist mjög vel en Eldhugar höfðu einnig boðið öðrum ungmennum úr starfi deilda á höfuðborgarsvæðinu. Það voru því skemmtilegir endurfundir enda höfðu margir kynnst vel í Alviðruferðinni í mars.

Byrjað var á því að bjóða gestum upp á léttar veitingar, farið var í ýmsa skemmtilega leiki og svo fékk allur hópurinn leiðsögn um húsið og fræðslu um starfsemi landsskrifstofu. Þá dreifðu Eldhugarnir blaðinu til allra viðstaddra og sögðu frá tilurð þess en allur efniviður blaðsins er unninn af Eldhugunum sjálfum og sjálfboðaliðum. Hulda Hvönn Kristinsdóttir Eldhugi tók einnig að sér yfirumsjón með efnisþáttum blaðsins í samstarfi við starfsmenn deildarinnar. Í blaðinu má meðal annars finna viðtöl, ljóð og myndir úr starfinu í vetur. Hægt er að lesa blaðið í heild sinni hér.

Útgáfuhófið var lokahnykkurinn í starfi Eldhuga í vor en starfið mun síðan fara aftur á fullt skrið í haust. Kópavogsdeild vill þakka öllum sjálfboðaliðum í starfinu og frábærum Eldhugum fyrir gefandi og skemmtilegt starf í vetur.