Kópavogsdeild styrkir Fjölsmiðjuna um 250 þúsund krónur

28. maí 2010

Kópavogsdeild afhenti Fjölsmiðjunni 250 þúsund króna styrk á dögunum vegna flutnings smiðjunnar í nýtt og stærra húsnæði í Kópavogi. Fjölsmiðjan er mennta- og þjálfunarsetur fyrir fólk á aldrinum 16-24 ára sem ekki hefur náð að fóta sig í námi og á vinnumarkaði. Markmiðið er að styðja nemana til þess að komast á ný til náms eða í vinnu.

Fjölsmiðjan hefur verið starfrækt síðan árið 2001 og hefur Kópavogsdeild í gegnum árin veitt henni  talsverða fjárstyrki til uppbyggingar á aðstöðu í ýmsum deildum smiðjunnar. Þá hefur hún, ásamt öðrum  deildum  Rauða krossins á höfuðborgarsvæðinu, stutt dyggilega við rekstur hennar. Enn fremur hafa sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar stutt við starfið.