Sjálfboðaliðar pakka 226 fatapökkum, prjónakonur í Sunnuhlíð gáfu 82 teppi

31. maí 2010

Sjálfboðaliðar Kópavogsdeildar í verkefninu Föt sem framlag pökkuðu 226 fatapökkum í síðustu viku sem sendir verða til barna og fjölskyldna í neyð í Malaví. Í pakkana fóru prjónaflíkur sem sjálfboðaliðarnir hafa útbúið síðustu mánuði en prjónakonur á hjúkrunarheimilinu Sunnuhlíð komu einnig að pökkuninni með því að gefa deildinni 82 teppi og 6 peysur sem þær höfðu prjónað síðasta árið. Pakkarnir geyma prjónaðar og saumaðar flíkur á 0-12 mánaða gömul börn.

Þetta var síðasta pökkunin fyrir sumarfrí  en síðasta prjónakaffið á þessu misseri var einnig haldið í síðustu viku. Þá komu sjálfboðaliðarnir í sjálfboðamiðstöðina og áttu ánægjulega stund saman. Þeir fengu svo meira garn til að prjóna úr í sumar. Næsta prjónakaffi verður haldið í ágúst. Áhugasamir eru eindregið hvattir til að slást í hópinn.