Alþjóðlegir foreldrar í Grasagarðinum

1. jún. 2010

Góður hópur alþjóðlegra foreldra átti skemmtilega stund saman í Grasagarðinum í síðustu viku. Hópurinn hittist fimmtudagsmorgna í sjálfboðamiðstöð Kópavogsdeildarinnar en fer þó fljótlega í sumarfrí þannig að hann gerði sér dagamun í Grasagarðinum til tilbreytingar. Alls mættu um 15 foreldrar með börnin sín og gæddu sér á veitingum í góðu veðri.

Venjulega mæta um 10 foreldrar á hverja samveru og hefur myndast góð eining í hópnum. Hann hefur jafnvel skipulagt samverur utan hins hefðbundna tíma og farið í gönguferðir og prjónað saman. Á samverunum í sjálfboðamiðstöðinni er reglulega boðið upp á fræðslu eða kynningar sem tengjast börnum. Auk íslenskra foreldra eru þátttakendur frá Kína, Suður- Afríku, Japan, Póllandi, Ghana, Bretlandi, Bandaríkjunum og Þýskalandi.

Samverur alþjóðlegra foreldra fóru af stað hjá deildinni haustið 2007 og eru þær fyrir foreldra sem eru heima með börn á aldrinum 0-6 ára. Samverurnar eru frá september fram í júní. Hópurinn mun hittast 3. og 10. júní en svo verður gert hlé á samverunum þar til í september. Áhugasamir eru velkomnir í hópinn! 
 

Betty og David frá Kína með son sinn Alexander komu í Grasagarðinn.