Hnútabindingar á Gleðidögum

22. jún. 2010

Börnin á námskeiðinu Gleðidagar, sem Kópavogsdeildin hélt í síðustu viku, lærðu ýmislegt nýtt og eitt af því voru hnútabindingar. Jóhann S. Birgisson, eða Boggi eins og hann er venjulega kallaður, kenndi börnunum að binda hnúta og búa til glasamottur og hálsmen úr þeim. Þetta er í annað skiptið sem Boggi leiðbeinir á námskeiðinu en hann tók einnig þátt í því í fyrra. Þá var haft samband við skátana og óskað eftir leiðbeinendum með sérkunnáttu. Boggi gaf kost á sér í hnútabindingarnar og hefur að eigin sögn haft mjög gaman að því að leiðbeina börnunum. „Þetta er fræðandi fyrir börnin og gaman fyrir þau að búa til eitthvað sem þau geta farið heim með“, segir Boggi.

Námskeiðið var ókeypis fyrir 6-12 ára börn. Það var haldið í samvinnu við Öldrunarráð Íslands og leiðbeinendur á námskeiðinu eru að mestu eldri borgarar þar sem markmiðið var að þeir yngri lærðu af þeim eldri.