Sjálfboðaliðar úr Plúsnum á leið á sumarbúðir til Finnlands

2. júl. 2010

Hulda Hvönn Kristinsdóttir og Dagbjört Rós Jónsdóttir, sjálfboðaliðar í ungmennastarfi Kópavogsdeildar Rauða krossins taka þátt í sumarbúðum á vegum finnska Rauða krossins í Herttoniemi Helsinki 2.-8. ágúst næstkomandi. Hulda og Dagbjört hófu þátttöku sína í Rauða kross starfi með því að gerast Eldhugar en færðu sig svo yfir í Plúsinn þegar þær urðu eldri en það er starf fyrir 16-24 ára ungmenni. Auk þeirra fara tvö önnur ungmenni frá Rauða krossinum á Suðurnesjum og Stykkishólmi í sumarbúðirnar.

Sumarbúðirnar eru til þess ætlaðar að styrkja alþjóðlegt samstarf ungmenna og að þessu sinni er ungu fólki frá Rauða krossinum í Kosovo, Egyptalandi, Austurríki og Íslandi boðið að taka þátt. Áætlað er að hátt í 40 ungmenni taki þátt í sumarbúðunum í ár.

Kópavogsdeild styrkir ferð sjálfboðaliðanna að hluta til og hlakkar til að fá ferðasöguna í máli og myndum þegar heim verður komið úr eflaust eftirminnilegri ferð.