Nærveran er gefandi

Morgunblaðið

3. ágú. 2010

Gestum í athvarfinu Dvöl í Kópavogi líkar vel við tíkina Tinnu. Hundurinn er í eigu Þórðar Ingþórssonar forstöðumanns sem kom á óvart hve tímafrekt hundahald er. Greinin birtist í Morgunblaðinu 21.07.2010

„Hundar eru góðir fyrir geðheilsuna. Þetta er staðreynd sem bæði erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á og einnig er þetta eitthvað sem margir hafa sjálfir upplifað,“ segir Þórður Ingþórsson forstöðumaður Dvalar í Kópavogi, athvarfs sem Kópavogsdeild Rauða krossins og bæjaryfirvöld starfrækja í sameiningu.

Þórður kemur með hundinn sinn, tíkina Tinnu, til vinnu sinnar í Dvöl sérhvern dag. Tinnu og Dvalar-gestum kemur afar vel saman og eru gestirnir sammála um að nærvera hennar sé mjög gefandi á allan hátt.

Margar góðar minningar
„Ég átti hund í æsku og því fylgja margar góðar minningar. Því var það alltaf á stefnuskránni að eignast hund aftur, ekki síst þegar ég gerði mér ljóst að það gæti gagnast mér í starfinu hér. Það að ég fékk mér veiðihund sem er af tegundinni Vorste, sem er veiðihundakyn, var hins vegar hrein tilviljun,“ segir Þórður og að það hafi verið meiri vinna en hann reiknaði með að hafa hundinn.

„Ég tók við Tinnu á gamlársdag í fyrra þegar hún var tveggja og hálfs mánaðar gömul. Auðvitað er vinnan sem þessu fylgir mest fyrsta kastið meðan verið er að venja hundinn til og kenna þær umgengnisreglur sem fylgja skal. Í rauninni fylgir hundurinn mér allan sólarhringinn hvert sem ég fer og þetta er því nokkuð tímafrekt. Þessi vinna er samt algjörlega fyrirhafnarinnar virði, því bæði eru krakkarnir mínir tveir sem eru tólf og sex ára mjög hænd að Tinnu og fólkið sem ég starfa með. Dvöl er á fallegum stað í suðurhlíðunum og það er fastur þáttur í starfinu hjá okkur að fara í góðan göngutúr á hverjum degi hér um Kópavogsdalinn og nærliggjandi svæði og þá er hundurinn alltaf með. Hundurinn þarf sína hreyfingu og þá eru gönguferðirnar á daginn fínar en svo fer ég alltaf út með hann á kvöldin, og þá í lengri ferðir,“ segir Þórður Ingþórsson.
sbs@mbl.is