Verkefnið Föt sem framlag fékk góðan fjárstyrk

26. ágú. 2010

Anna Bjarnadóttir, sjálfboðaliði og prjónakona, í verkefninu Föt sem framlag færði Kópavogsdeildinni í gær fjárstyrk að upphæð 263 þúsund krónur. Anna átti stórafmæli fyrr í sumar og í stað þess að þiggja gjafir bað hún fólk um að styrkja verkefnið. Þetta varð afraksturinn og kemur hann sér einkar vel fyrir verkefnið.

Fjármagninu verður varið til kaupa á garni fyrir sjálfboðaliða verkefnisins. Anna var ein af fyrstu sjálfboðaliðunum í verkefninu og hefur tekið þátt í því í yfir 20 ár. Deildin færir henni bestu þakkir fyrir þennan rausnarlega styrk.

Verkefnið Föt sem framlag samanstendur af hópi sjálfboðaliða sem prjóna, sauma og hekla ungbarnaföt sem síðan eru send til barna og fjölskyldna í neyð erlendis. Þeir útbúa meðal annars peysur, teppi, sokka, húfur og bleyjubuxur. Tilgangurinn með þessu verkefni er að mæta skorti á ungbarnafötum á svæðum þar sem neyð ríkir en í almennum fatasöfnunum berst minnst af barnafötum. Handavinnan miðar að því að draga úr þessum skorti. 
 

Anna ásamt Lindu Ósk Sigurðardóttir, framkvæmdastjóra deildarinnar, við afhendingu styrksins í prjónakaffi í húsnæði deildarinnar í gær.