Nýttu tímann – opið Rauðakrosshús í Kópavogi

6. sep. 2010

Deildin fer aftur af stað með verkefnið Nýttu tímann 13. september næstkomandi. Þá verður opið hús í húsnæði deildarinnar í Hamraborg 11, 2. hæð, kl. 11-15 á mánudögum, þriðjudögum og föstudögum. Boðið verður upp á fjölbreytta dagskrá fyrirlestra, samveru, námskeiða og ráðgjafar. Hægt er að kynna sér dagskrána með því að smella hér. Fyrstu tvær vikurnar verður meðal annars boðið upp á fyrirlestur um hamingju, námskeið í ræktun kryddjurta og ljósmyndum ásamt útileikfimi. Allir eru velkomnir að koma í Rauðakrosshúsið í Kópavogi!    

Markmiðið með verkefninu Nýttu tímann er að virkja og hvetja fólk þótt að þrengi vegna erfiðra efnahagsaðstæðna, atvinnuleysis og krappra kjara. Verkefninu er ætlað að skapa jákvæðar aðstæður fyrir fólk og ekki síst rjúfa einsemd og félagslega einangrun.