Fjölbreytt kynningar- og fræðslustarf hjá Kópavogsdeild

16. sep. 2010

Síðustu vikur hefur verkefnastjóri ungmennamála ásamt sjálfboðaliðum sinnt öflugu kynningarstarfi í Kópavogi, bæði fyrir grunn- og framhaldsskólanemendur. Þessa dagana er hann með sjálfboðaliðum Plússins að heimsækja alla lífsleiknema Menntaskólans í Kópavogi. Þá fá nemendur kynningu á starfi Rauða krossins, fordómafræðslu og HIV-forvarnir í tvöfaldri kennslustund í senn. Gert er ráð fyrir að með þessu muni fræðslustarf Plússins ná til allra nýnema innan menntaskólans.

Öllum grunnskólum í Kópavogi býðst einnig að fá kynningu á starfi Rauða krossins fyrir nemendur 8. bekkja. Skólarnir hafa verið duglegir að nýta sér boðið og flestir skólar fengið kynningu fyrir sína nemendur nú þegar. Auk þess sem nemendur fá innsýn inn í starf Rauða krossins er verkefni Kópavogsdeildar sem þessi aldurshópur getur tekið þátt í kynnt fyrir nemendum. Oftar en ekki skapast góðar og líflegar umræður og nemendur sýna starfinu mikinn áhuga.
 

Lífsleikninemar í HIV-forvarnafræðslu.