Enter og Eldhugar hittust í vikunni

17. sep. 2010

Nú eru verkefni Kópavogsdeildar, Enter og Eldhugar, fyrir börn og unglinga farin aftur af stað eftir sumarfrí. Enter er verkefni fyrir unga innflytjendur á aldrinum 9-12 ára en Eldhugar eru fyrir 13-16 ára unglinga af íslenskum og erlendum uppruna. Bæði verkefnin miða að því að auðvelda ungum innflytjendum að aðlagast nýju samfélagi og taka virkan þátt í því en Eldhugar vinna auk þess sérstaklega með hugtökin vináttu og virðingu í gegnum skapandi verkefni og leik.

Eldhugarnir hófu sinn fyrsta fund með hópefli og leikjum sem miðaði að því að hrista hópinn saman enda koma Eldhugarnir alls staðar að úr Kópavogi og frá ýmsum löndum. Hópurinn setti einnig saman drög að dagskrá en Eldhugar fá að hafa áhrif á það hvaða viðfangsefni er unnið með hverju sinni. Margar hugmyndir komu fram líkt og að kynna sér íþróttir og dans frá ýmsum löndum og auk þess að vinna áfram með ljósmyndun. Þá munu Eldhugar áfram láta gott af sér leiða með því að búa til handverksvörur fyrir markað deildarinnar og með þátttöku í frekari fjáröflun af ýmsu tagi.
 

Eldhugarnir á sinni samveru í vikunni.

Enter-hópurinn hóf vetrarstarf sitt með því að fara í ýmsa hópeflis- og nafnaleiki enda koma ný börn í hópinn á nýrri önn. Þá er margt á döfinni sem miðar að því að efla málskilning og samfélagslega aðlögun. Það verður farið í ratleik, ferð á bókasafnið, sungið saman, spilað og farið í vettvangsheimsóknir. Enter-hópurinn er fjölþjóðlegur og koma börnin meðal annars frá Filippseyjum, Portúgal, Póllandi, Rússlandi, Lettlandi og Litháen.