Opið hús – dagskrá vikunnar

20. sep. 2010

Deildin býður upp á fjölbreytta dagskrá í vikunni á opnu húsi og eru áhugasamir eindregið hvattir til að nýta sér það. Í dag er boðið upp á leikfimi með léttum æfingum sem allir ættu að geta gert. Síðan kemur fulltrúi frá VR og segir frá þeirri þjónustu sem verkalýðsfélagið býður atvinnuleitendum á skrá hjá sér. Á morgun, þriðjudag, verður svo handavinnustund þar sem fólk getur komið með föndrið sitt og hitt aðra áhugasama um föndur. Þá verður einnig námskeið í ræktun kryddjurta. Á föstudaginn verður svo fyrirlestur um hamingju og fjallað verður um tíu aðferðir til að auka hamingju sína. Á föstudaginn verður líka bingó. Einnig er boðið upp á ráðgjöf fyrir innflytjendur og ráðgjöf hjá atvinnumálafulltrúum Kópavogsbæjar. Allir eru velkomnir á opna húsið en ítarlegri dagskrá má finna með því að smella hér.

Opna húsið er í húsnæði deildarinnar í Hamraborg 11, 2. hæð og er skipulögð dagskrá mánudaga, þriðjudaga og föstudaga kl. 11-15. Markmiðið með opna húsinu er að virkja og hvetja fólk þótt að þrengi vegna erfiðra efnahagsaðstæðna, atvinnuleysis og krappra kjara. Verkefninu er ætlað að skapa jákvæðar aðstæður fyrir fólk og ekki síst rjúfa einsemd og félagslega einangrun. Allir eru velkomnir og eru allir viðburðir án endurgjalds.