Vel sótt námskeið í skyndihjálp og Slys og veikindi barna

22. sep. 2010

Deildin hélt nýlega námskeið í skyndihjálp og námskeiðið Slys og veikindi barna og voru þau bæði vel sótt. Full skráning var á skyndihjálparnámskeiðið og lærðu þátttakendur grundvallaratriði í skyndihjálp og endurlífgun. Markmiðið er að þeir sem sitja námskeiðið verði hæfir til að veita fyrstu hjálp á slysstað. Námskeiðið Slys og veikindi barna fjallar um varnir gegn slysum á börnum og orsakir slysa almennt, þroska barna og slys sem tengjast aldri. Leiðbeint er í skyndihjálp við barnaslysum og áverkum af ýmsu tagi, endurlífgun barna og andlegum undirbúningi við komu barna á sjúkrahús.
Námskeiðið sálrænn stuðningur verður svo haldið þriðjudaginn 5. október.

Á námskeiðinu fræðast þátttakendur um gildi sálræns stuðnings í aðstæðum sem geta valdið áföllum. Þátttakendur læra að gera sér betur grein fyrir eðlilegum viðbrögðum fólks sem lendir í sársaukafullum aðstæðum og hvernig þeir geti veitt stuðning og umhyggju. Viðfangsefnin verða meðal annars mismunandi tegundir áfalla, áhrif alvarlegra atvika á einstaklinginn, sálræn skyndihjálp, stuðningur við úrvinnslu alvarlegs atviks, sorg og sorgarferli. Hægt er að skrá sig með því að smella hér.