Lífsleikninemar Menntaskólans í Kópavogi ganga til góðs

24. sep. 2010

Kópavogsdeild tekur þátt í landssöfnuninni Göngum til góðs laugardaginn 2. október. Stefnt er að því að ganga með söfnunarbauka í hvert hús í bænum. Í ár verður safnað fyrir verkefni Rauða krossins í Afríku, sérstaklega barna- og ungmennaverkefni í Malaví og Síerra Leóne. Líkt og fyrri ár þarf á liðsinni fjölda sjálfboðaliða að halda og er það von deildarinnar að sem flestir í Kópavogi komi og leggi söfnuninni lið. Það var því mikið gleðiefni að sjá hversu margir nemendur sýndu landssöfnunni áhuga í kynningarfyrirlestrum sem sjálfboðaliðar og starfsmenn Kópavogsdeildar héldu í Menntaskólanum í Kópavogi í síðustu viku.

Allir nýnemar skólans sem sitja lífsleikniáfanga, eða 180 nemendur, sátu þessa fyrirlestra. Nemendunum var boðið að ganga til góðs sem hluta af námi sínu í lífsleikni. Þeir geta fengið gönguna metna sem eitt af verkefnum annarinnar, auk ánægjunnar sem felst í því að láta gott af sér leiða. Eina sem þau þurfa að gera er að mæta á söfnunarstöð, fá bauk og götu til að ganga í og svo skila þau bauknum aftur eftir 1-2 klukkutíma, endurnærð á líkama og sál.

Auk kynningarinnar á Göngum til góðs fengu nemendurnir einnig almenna kynningu á starfi Rauða krossins, fordómafræðslu og HIV-forvarnir. Kópavogsdeild hefur átt góðu samstarfi að fagna við Menntaskólann í Kópavogi síðustu ár en auk lífsleikninnar má nefna áfangann SJÁ 102. Í þeim áfanga sinna nemendur sjálfboðnu starfi og fá einingar fyrir. Nemendur í áfanganum á þessari önn munu einnig ganga til góðs.

Þeir sem vilja ganga með okkur til góðs geta forskráð sig með því að smella hér. Einnig er hægt að mæta beint á eina af fjölmörgu söfnunarstöðvunum í bænum. Þær verða í Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11, Sundlauginni Versölum, Sundlaug Kópavogs, Digranesskóla, Snælandsskóla, Smáraskóla, Vatnsendaskóla og Dvöl við Reynihvamm. Söfnunarstöðvarnar opna kl. 10.