Saman búum við til betri heim

27. sep. 2010

Kópavogsdeild Rauða krossins skorar á fólk að gerast sjálfboðaliði í klukkustund laugardaginn 2. október og ganga til góðs fyrir landssöfnun Rauða krossins. Söfnunarfénu verður að þessu sinni varið til verkefna Rauða kross Íslands í Afríku. Sérstaklega er um barna- og ungmennaverkefni í Malaví og Síerra Leóne að ræða. Í Malaví, þar sem verkefnin fara æ vaxandi, aðstoðar Rauði krossinn börn sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis og í Síerra Leóne er unnið að stuðningi við stríðshrjáð börn og barnahermenn.

Féð gerir Rauða krossinum meðal annars kleift að gefa munaðarlausum börnum eina heita máltíð á dag í athvörfum, þar sem þau geta líka leikið sér og fengið uppbyggjandi fræðslu. Þá getur hann aðstoðað sjálfshjálparhópa alnæmissmitaðra við að koma sér upp matjurtargörðum en það eflir heilsu og lengir líf þeirra. Það gerir honum einnig kleift að kenna 150 stríðshrjáðum ungmennum á ári lestur, skrift og ýmsar iðngreinar og þannig gefið þeim tækifæri í lífinu sem þau hefðu annars ekki.

Við biðjum Kópavogsbúa að taka sjálfboðaliðum okkar vel og muna að hafa handbært fé þegar þeir banka uppá. Sjálfboðaliðarnir verða merktir söfnuninni og hafa meðferðis sérstaka bauka merkta Rauða krossinum. 
 

Sjálfboðaliðar stóðu einnig vaktina við fjölfarna staði í Kópavogi árið 2008 og söfnuðu.