Von um betra líf - Síerra Leone

28. sep. 2010

Í Sierra Leone styður Rauði krossinn ungmenni til mennta eftir þátttöku í borgarastyrjöldinni sem var í landinu. Átökin komu í veg fyrir eðlilegan þroska þeirra á líkama og sál en sum þeirra misstu allt að fimm ár úr skóla. Strákarnir voru margir barnahermenn og stúlkurnar teknar sem kynlífsþrælar. Eitt ár í endurmenntunarstöðvum Rauða krossins er það tækifæri sem þau fá í lífinu.

Frá 2001 hefur fimm athvörfum verið komið á laggirnar þar sem börnin stunda almennt bóknám og einnig ýmis konar iðnnám. Þeim býðst að læra handbragð við ýmsar starfsgreinar, t.d. húsa- eða húsgagnasmíði, bakstur, saumaskap, sápugerð, hárgreiðslu og landbúnað. Þau fá einnig fræðslu um alnæmi og getnaðarvarnir.

Fagfólk veitir þeim sálrænan stuðning og einnig er reynt að endurnýja tengslin við fjölskyldur þeirra og þorpssamfélag. Jafnframt fá aðstandendur barnanna fræðslu um aðstæður þeirra og um áhrif stríðsátakanna á börnin. Haldnir eru fundir þar sem meðal annars er rætt um stríðsátökin, mannréttindi og jafnrétti kynjanna. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna hér.
 

Tómstundastarf er með ýmsum hætti, dans, leiklist, íþróttir og fleira.

Staðreyndir úr starfinu
• 750 börn á aldrinum 10–18 ára voru innrituð í fjögur athvörf á síðasta ári.
• 22 þorpssamfélög tóku þátt í og fengu aðstoð í tengslum við starf athvarfanna.
• 130 ungmenni á aldrinum 18–30 ára voru innrituð í athvörfin í Waterloo og Port Loko.
• 40 einstaklingar og 52 hópar fengu ýmis konar ráðgjöf frá starfsfólki athvarfanna.
• 500 foreldraheimsóknir (e. home visits ) með ráðgjöf um barnauppeldi og sálrænan stuðning.
• 6 þorpssamfélög fengu stuðning og ráðgjöf í ræktun og landbúnaði.
• Má ætla að um 2.000 einstaklingar í yfir 20 þorpssamfélögum hafi fengið almenna heilbrigðisfræðslu um malaríu, hreinlæti, barneignir og alnæmi.