Von um betra líf - Malaví

29. sep. 2010

Rauða kross Íslands styður malavíska Rauði krossinn við framkvæmd alnæmisverkefna á tveimur svæðum, annars vegar í Nkalo í Chiradzulu-héraði og hins vegar í Kanduku í Mwanza- héraði. Í Nkalo eru 96 þorp þar sem búa rúmlega 42 þúsund manns. Í Kanduku eru 48 þorp og um 35 þúsund manns sem njóta góðs af átaki Rauða krossins. Í Malaví styður Rauði kross Íslands meðal annars munaðarlaus börn til framfærslu og mennta. Börnin eru ekki tekin úr umhverfi sínu heldur er þeim gefinn kostur á að alast upp í þorpinu sínu. Máltíðin sem þau fá hjá Rauða krossinum er eina máltíð dagsins hjá sumum þeirra. 

Það starf skiptir oft sköpum í lífi fólks og stuðlar enn fremur að því að minnka fordóma í garð þeirra sem eru smitaðir. Umræðan innan hópanna er opnari og óþvingaðri. Sameinað er fólk sterkara og getur sýnt öðrum fram á að lífinu er ekki lokið þó maður reynist HIV-jákvæður. Þetta skiptir miklu við að reyna að hefta frekari útbreiðslu. Alnæmissjúkum og langveiku fólki er veitt heimahlynning og einnig er illa stöddum börnum veitt aðstoð. Þeir sem eru smitaðir en rólfærir eru hvattir til að taka þátt í stuðningshópum. Nánari upplýsingar um verkefnið er að finna hér.
 

Ung stúlka í Chiradzulu-héraði í Malaví ásamt litlu systur sinni sem hún hefur umsjón með því foreldrar þeirra eru fallnir frá.

Staðreyndir úr starfinu: 
• Í byrjun árs voru 332 skjólstæðingar í Mwanza sem nutu heimahlynningar sjálfboðaliðanna í alnæmisverkefninu en vegna réttrar aðhlynningar og lyfjagjafa tókst að útskrifa um helming þeirra á árinu. Flestir þeirra eru nú í stuðningshópum smitaðra þar sem meðlimir hjálpast að og styðja hverja aðra.
• Um 800 börn sóttu leikskólana í Mwanza og Chiradzulu og fengu þar mat, kennslu og umönnun.
• Alls nutu um 3.600 börn í Mwanza og Chiradzulu stuðnings Rauða krossins er varðar skólagöngu, matvæli, fatnað og félagslegan stuðning. Voru það nokkru færri en á fyrra ári og skýrist af erfiðleikum við að útvega nægilegt fjármagn til starfsins.
• Börn á Íslandi söfnuðu nærri einni milljón króna sem varið var til kaupa á útileiktækjum handa malavísku börnum.