Við erum ekki vön að láta okkar eftir liggja hér í Kópavogi!

30. sep. 2010

„Nú treystum við á að bæjarbúar gangi til liðs við okkur eins og ávallt þegar við leitum eftir stuðningi“, segir Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir formaður Kópavogsdeildar. Laugardaginn 2. október verður gengið til góðs í Kópavogi og er stefnt á að ganga með söfnunarbauka í hvert hús í bænum og þarf deildin því á mörgum sjálfboðaliðum að halda, eða um 350 talsins.

Söfnunarfénu verður varið til verkefna Rauða kross Íslands í Afríku, sérstaklega til barna- og ungmennaverkefna í Malaví og Síerra Leóne. Í Malaví aðstoðar Rauði krossinn börn sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis og í Síerra Leóne er unnið að stuðningi við stríðshrjáð börn og barnahermenn. Féð gerir Rauða krossinum meðal annars kleift að gefa munaðarlausum börnum eina heita máltíð á dag í athvörfum, þar sem þau geta líka leikið sér og fengið uppbyggjandi fræðslu. Sjálfshjálparhópar alnæmissmitaðra fá einnig aðstoð við að koma sér upp matjurtargörðum og að minnsta kosti 150 stríðshrjáð ungmenni á ári fá kennslu í lestri, skrift og ýmsum iðngreinum sem færir þeim aukin tækifæri í lífinu.

Deildin verður með átta söfnunarstöðvar sem verða opnar frá 10-17 og verða á eftirfarandi stöðum: Rauðakrosshúsinu Hamraborg 11, Sundlaug Kópavogs, Sundlauginni Versölum Digranesskóla, Smáraskóla, Vatnsendaskóla, Snælandsskóla og Dvöl við Reynihvamm.

Það eina sem þarf að gera er að mæta á söfnunarstöð, skrá sig, fá söfnunarbauk og götu úthlutað og ganga af stað. Reynslan sýnir að flestum finnst ánægjulegra að ganga með öðrum, vinnufélaga, vini eða kunningja, og algengt er að foreldrar og börn gangi saman. „Ég vil því hvetja ykkur til að bjóða einhverjum í skemmtilegan göngutúr til góðs á laugardaginn“, segir Ingibjörg Lilja.

Deildin opnar söfnunarstöðvarnar kl. 10 og áhugasamir geta skráð sig á vefnum með því að smella hér.