Hvaða götu tekur þú?

1. okt. 2010

Landssöfnun Rauða kross Íslands Göngum til góðs verður á morgun, laugardag, og er undirbúningur fyrir hana í fullum gangi hjá félaginu. Verkefnastjórar eru meðal annars að taka saman gögn fyrir söfnunarstöðvar og útbúa kort fyrir göngufólk. Þá er leitað til sjálfboðaliða deildarinnar með að manna söfnunarstaði, þ.e. fjölfarna staði í Kópavogi eins og Smáralind og Smáratorg, til að safna þar líka. Stefnt er að því að ganga í öll hús á landinu og þarf Rauði krossinn því á 3.000 sjálfboðaliðum að halda. Hvaða götu ætlar þú að taka?

Söfnunin snýst um að fá sér göngutúr í 1-2 tíma og ganga í hús með söfnunarbauk. Hægt er að ganga einn eða með öðrum og jafnvel taka alla fjölskylduna með. Í ár er safnað til að styrkja börn í neyð í Malaví og Síerra Leoné.Hægt er að forskrá sig hér á síðunni eða mæta beint á söfnunarstað næst heimili manns á morgun og skrá þig þá. Það verða 8 söfnunarstaðir í Kópavogi; Rauðakrosshúsið Hamraborg 11, Sundlaug Kópavogs, Sundlauginni Versölum Digranesskóla, Smáraskóla, Vatnsendaskóla og Snælandsskóla. Gengið verður kl. 10-17.