289 sjálfboðaliðar tóku þátt í Göngum til góðs í Kópavogi

4. okt. 2010

Alls tóku 289 sjálfboðaliðar þátt í söfnuninni Göngum til góðs í Kópavogi á laugardaginn. 250 manns gengu í hús og þó að ekki hafi tekist að ganga í öll hús náðu sjálfboðaliðarnir að fara í stærsta hluta þeirra. Gengið var út frá 8 söfnunarstöðvum í bænum og sáu alls 14 sjálfboðaliðar um þær. 25 manns stóðu síðan vaktina á 6 fjölförnum stöðum eins og í Smáralind og á Smáratorgi. Sjálfboðaliðunum var flestum vel tekið og var fólk tilbúið að styrkja Rauða krossinn í þessari söfnun. 

Í ár verður söfnunarfénu varið til verkefna Rauða kross Íslands í Afríku, sérstaklega til barna- og ungmennaverkefna í Malaví og Síerra Leóne. Í Malaví aðstoðar Rauði krossinn börn sem eiga um sárt að binda vegna alnæmis og í Síerra Leóne er unnið að stuðningi við stríðshrjáð börn og barnahermenn. Féð gerir Rauða krossinum meðal annars kleift að gefa munaðarlausum börnum eina heita máltíð á dag í athvörfum, þar sem þau geta líka leikið sér og fengið uppbyggjandi fræðslu. Sjálfshjálparhópar alnæmissmitaðra fá einnig aðstoð við að koma sér upp matjurtargörðum og að minnsta kosti 150 stríðshrjáð ungmenni á ári fá kennslu í lestri, skrift og ýmsum iðngreinum sem færir þeim aukin tækifæri í lífinu.

Deildin hvetur þá sem ekki voru heima þegar sjálfboðaliða bar að garði eða búa í hverfum sem ekki tókst að fullmanna, að hringja í söfnunarsíma Göngum til góðs ef þeir vilja styrkja málefnið.  Hægt er að hringja í þrjú símanúmer: 904 1000, 904 3000, og 904 5000, og þá bætast við 1.000 kr., 3.000 kr. eða 5.000 kr. við næsta símreikning. Símafyrirtækin taka ekkert fyrir símtalið.

Unnur Tryggvadóttir Flóvenz og Unnur Hjálmarsdóttir tóku vel á móti göngufólki á söfnunarstöðinni í sundlaug Kópavogs.

Kópavogsdeild er ákaflega þakklát þeim sem gáfu af tíma sínum á laugardaginn og gengu til góðs, og einnig þeim sem tóku á móti sjálfboðaliðunum og gáfu í söfnunina.