Kópavogsbúar gáfu um 2 milljónir í Göngum til góðs

6. okt. 2010

Í landssöfnun Rauða krossins síðastliðinn laugardag söfnuðust um 2 milljónir í Kópavogi. Ekki er komin heildartala fyrir allt landið en Kópavogsbúar geta verið stoltir af sínu framlagi. Gengið var í hús í öllum hverfum bæjarins og náðist að fara í um 80% húsa. Eins og áður hefur komið fram hér á síðunni þá verður söfnunarfénu varið til verkefna Rauða kross Íslands í Malaví og Síerra Leóne þar sem áhersla er lögð á að bæta lífsgæði barna. Frekari upplýsingar um verkefnin má fá með því að smella hér fyrir Malaví og hér fyrir Síerra Leóne.

Deildin hvetur þá sem ekki voru heima þegar sjálfboðaliða bar að garði, þá sem búa í hverfum sem ekki tókst að fullmanna að hringja í söfnunarsíma Göngum til góðs ef þeir vilja styrkja málefnið.  Hægt er að hringja í þrjú símanúmer: 904 1000, 904 3000, og 904 5000, og þá bætast við 1.000 kr., 3.000 kr. eða 5.000 kr. við næsta símreikning. Símafyrirtækin taka ekkert fyrir símtalið.