Opið Rauðakrosshús þrjá daga í viku

8. okt. 2010

Kópavogsdeild er með opið hús í húsnæði deildarinnar á mánudögum, þriðjudögum og föstudögum kl. 11-15. Margt áhugavert er í boði þessa daga og er þátttaka ókeypis og opin öllum. Næstu tvær vikurnar verður meðal annars boðið upp á fyrirlestra um tilfinningagreind, Súdan og listina að lifa í núinu. Þá verða námskeið í hugleiðslu og betri tímastjórnun. Fulltrúi frá Umboðsmanni skuldara kemur í heimsókn til að fjalla um embættið og svara spurningum um þjónustu þess. Einnig verður boðið upp á handavinnu, tarotlestur, tölvuaðstoð, ráðgjöf og bingó. Hægt er að kynna sér dagskrána betur með því að smella hér.

Opna húsið er hluti af verkefni með yfirskriftinni „Nýttu tímann“. Markmiðið er að virkja og hvetja fólk þótt að þrengi vegna erfiðra efnahagsaðstæðna, atvinnuleysis og krappra kjara. Verkefninu er ætlað að skapa jákvæðar aðstæður fyrir fólk og ekki síst rjúfa einsemd og félagslega einangrun. Áhugasamir eru eindregið hvattir til að koma í Rauðakrosshúsið í Kópavogi og nýta sér áhugaverða dagskrá. Alltaf heitt á könnunni!