Ingó veðurguð á sameiginlegri samveru ungmennastarfs

27. okt. 2010

Sameiginleg samvera ungmenna í Rauða kross starfi á höfuðborgarsvæðinu var haldin í síðustu viku í Rauðakrosshúsinu í Reykjavík. Þar hittust 13-16 ára unglingar sem taka þátt í ungmennastarfi Kópavogs, Hafnarfjarðar, Reykjavíkur og Mosfellsbæ. Slíkar samverur eru haldnar reglulega til að hrista hópana saman og má þar einnig nefna vorferð barna og ungmenna sem farin er á hverju vori og auk þess hafa ungmennin farið saman í ferð í Alviðru þar sem þau hafa fengið ýmis konar fræðslu um Rauða krossinn og mannréttindi.

Að þessu sinni hittust hóparnir undir formerkjunum ,,Sit down með Ingó” þar sem Ingó veðurguð kom og spjallaði við krakkana um lífið og tilveruna, spilaði lög og svaraði spurningum. Þá sýndu ungmenni úr Eldhugastarfi Kópavogsdeildar stuttmynd úr stuttmyndakeppni sem þau héldu nýlega. Stuttmyndin nefnist ,,Fíkniefni og forvarnir” og hægt er að sjá hana í heild sinni með því að smella hér.

Hóparnir hittast aftur á aðventunni þar sem áformað er að halda sameiginlega jólagleði.