Úrslit kunn í ljósmynda- og stuttmyndakeppni Eldhuga

29. okt. 2010

Á samveru Eldhuga í gær fór fram verðlaunaafhending í ljós- og stuttmyndakeppni þeirra en þemað að þessu sinni var frjálst og útkoman fjölbreytt eftir því. Eldhugarnir Aníta Sif og Tanja Björk fengu verðlaun fyrir stuttmynd sína ,,Fíkniefni og forvarnir” en með henni vilja þær vekja jafningja sína til umhugsunar um skaðsemi fíkniefna og mikilvægi þess að standa sterkur með sjálfum sér. Hægt er að sjá stuttmyndina með því að smella hér. Tvenn verðlaun voru gefin fyrir ljósmyndir en þau fengu Anna Guðrún fyrir mynd sína um virðingu og Katrín fyrir mynd sína sem túlkar vináttu með skemmtilegu móti. Eldhugar höfðu fengið tilsögn frá sjálfboðaliða deildarinnar um helstu þætti í gerð slíkra mynda og það nýttist þeim greinilega vel við vinnuna.

Að þessu sinni styrkti Hamborgarafabrikkan Kópavogsdeild um verðlaun og fengu vinningshafa gjafabréf upp á hamborgaramáltíð og gos og vöktu verðlaunin auðvitað mikla lukku.

Eldhugar eru ungmenni á aldrinum 13-16 ára af íslenskum og erlendum uppruna sem hittast í sjálfboðamiðstöðinni á fimmtudögum kl. 17.30-19.00. Eldhugar vinna skemmtileg og skapandi verkefni sem miða að því að byggja betra samfélag án mismununar og fordóma. Unnið er með hugtök eins og vinátta, virðing og umburðarlyndi í gegnum leiki, ljósmyndun, leiklist, vettvangsferðir og margt fleira.
 

Vinkonur: Vinningsmynd Katrínar.

 

Laufblað: Vinningsmynd Önnu Guðrúnar.