Markaður í dag, laugardag!

20. nóv. 2010

Markaður Kópavogsdeildar hefst kl. 11 í dag, laugardag, og þar verður hægt að gera góð kaup á ýmis konar prjónavörum og öðru handverki sem sjálfboðaliðar deildarinnar hafa búið til. Þá verða notuð föt til sölu og skiptidótamarkaður einnig í gangi þar sem fólki gefst tækifæri til að koma með dót og skipta út fyrir annað. Það verður líka hægt að kaupa notuð leikföng á vægu verði. Auk þessa verður handverk frá Mósambík til sölu, skartgripir, töskur, batik-myndir og fleira.  Einnig verða til sölu kökur og brjóstsykur sem hefur verið búið til sérstaklega fyrir markaðinn. Dagatöl sem yngstu þátttakendur deildarinnar í Rauða kross starfi – Enter-börnin – hafa handgert verða líka til sölu. Allur ágóði rennur til verkefna innanlands.

Nemendur Menntaskólans í Kópavogi í áfanga um sjálfboðið Rauða kross starf sjá um markaðinn. Markaðurinn er staðsettur í Rauðakrosshúsinu í Hamraborg 11, 2. hæð, og verður opinn frá kl. 11-16. Það er tilvalið að kaupa handverk til að gefa t.d. í jólagjafir eða sængurgjafir og styrkja gott málefni í leiðinni!