Það er gott að láta gott af sér leiða - Viðtal við sjálfboðaliða

2. des. 2010

Rakel Sara Hjartardóttir er 19 ára Kópavogsbúi sem hefur verið sjálfboðaliði hjá Kópavogsdeild í hátt á annað ár. Hún hefur unnið með börnunum í Enter en þau eru ungir innflytjendur á aldrinum 9-12 ára. Verkefnið er unnið í samvinnu við móttökudeild nýbúa í Álfhólsskóla og hófst árið 2004. Börnin koma einu sinni í viku eftir skóla í Rauðakrosshúsið Hamraborg 11 og fá meðal annars málörvun og fræðslu í gegnum fjölbreytta leiki og vettvangsferðir. Markmið verkefnisins er að auðvelda börnum af erlendum uppruna aðlögun að íslensku samfélagi og virka þátttöku í því.

Rakel Sara ákvað í byrjun að gerast sjálfboðaliði þar sem hún hafði frítíma sem hún vildi nýta til góðs. Þá hafði hún heyrt af Rauða krossinum í Kópavogi í gegnum vinkonu sína. Hún hafði því samband við Kópavogsdeild, fór í viðtal og fékk að heyra hvaða sjálfboðaliðastörf væru í boði fyrir hana. Hún hafði sérstakan áhuga á því að vinna með börnum og þess vegna varð Enter-starfið fyrir valinu.

„Ég hafði heyrt um sjálfboðaliðastörf í Kópavog hjá vinkonu minni en vinkona mín hafði unnið sem sjálfboðaliði í Rjóðrinu, athvarfi fyrir langveik börn. Ég vildi líka vinna með börnum og fannst spennandi að taka þátt í að vinna með börnum af erlendum uppruna,“ segir Rakel Sara.

Hún segir að börnin séu kurteis og góð og henni finnist hún hafa lært mikið af starfinu sínu eða eins og hún segir sjálf: „Ég hef lært aukna þolinmæði, umburðarlyndi, víðsýni og mér finnst eins og krakkarnir hafi kennt mér að vera meira skapandi, enda börnin oft mjög frjó og opin. Hér er oft mikið fjör.“ Það sem henni finnst hafa verið mest gefandi við starf sitt sem sjálfboðaliði er samveran með börnunum og félagsskapurinn, bæði við börnin og hina sjálfboðaliðana. „Það er gott að láta gott af sér leiða ef maður getur,“ segir hún að lokum.

Rakel Sara hefur hug á frekari sjálfboðaliðastörfum, líkt og þátttöku í hundavinaverkefninu, en hún á hund sem hún vill gjarnan þjálfa upp í að gerast heimsóknarvinur með sér.