Alþjóðadagur sjálfboðaliðans

5. des. 2010

Í dag, 5. desember, er alþjóðadagur sjálfboðaliðans og í tilefni dagsins vill Kópavogsdeild Rauða krossins færa sjálfboðaliðum sínum bestu þakkir fyrir mikið og óeigingjarnt starf.

Starf Rauða krossins er borið upp af sjálfboðnu starfi og án sjálfboðaliða gæti deildin ekki haldið úti öllum þeim verkefnum sem hún er að sinna og bjóða upp á. Störf sjálfboðaliða eru deildinni mikils virði og það er ómetanlegt fyrir okkur að eiga traustan hóp sjálfboðaliða að, án ykkar værum við ekki til.

Við getum með stolti sagt að verkefni deildarinnar sé í fullum blóma, verkefnin næg og hundruðir sjálfboðaliða að störfum í hinum ýmsu verkefnum. Sjálfboðaliðar í verkefninu Föt sem framlag eru yfir 60 talsins, þeir prjóna, hekla og sauma fatnað í ungbarnapakka sem sendir eru til neyðaraðstoðar erlendis og alls pökkuðu þeir 658 fatapökkum á árinu. Þá útbúa þeir ýmsan varning fyrir fjáröflunarmarkaði deildarinnar. Ungmennastarf Kópavogsdeildar er gróskumikið og á árinu störfuðu vel yfir 100 sjálfboðaliðar í barna- og ungmennaverkefnum deildarinnar. Í ungmennastarfinu er að finna ýmsa áhugahópa eins og hönnunarhóp, leiklistarhóp, fjáröflunarhóp og stýrihóp. Yfir 100 sjálfboðaliðar hafa sinnt heimsóknarþjónustu á árinu og veitt fólki félagsskap með reglubundnum heimsóknum á einkaheimilum, í Sunnuhlíð, sambýlum eldri borgara, Fangelsinu Kópavogi, Líknardeild LSH og fleiri stöðum í bænum. Alls tóku 289 sjálfboðaliðar í Kópavogi þátt í landssöfnun Rauða kross Íslands, Göngum til góðs. Nýttu tímann er verkefni sem er ætlað að virkja og hvetja fólk til virkni þótt að þrengi vegna erfiðra efnahagsaðstæðna, atvinnuleysis og krappra kjara. Deildin er með skipulagða dagskrá þrisvar í viku og viljum við hvetja fólk til að nýta sér þá fjölbreyttu dagskrá sem í boði er og minnum á að það eru allir velkomnir á þessar samverur.

Kópavogsdeild fagnar alþjóðadegi sjálfboðaliðans með veglegri dagskrá í Rauðakrosshúsinu, Hamraborg 11, kl.19.30 á morgun, mánudaginn 6. desember. 

Um leið og við óskum sjálfboðaliðunum okkar til hamingju með daginn, hvetjum við þá til þess að fjölmenna í Rauðakrosshúsið á morgun til að gera sér glaðan dag, bjóðum við nýja sjálfboðaliða velkomna til starfa með Kópavogsdeild og bjóðum þá að sjálfsögðu velkomna í gleðina á morgun.

Ingibjörg Lilja Diðriksdóttir formaður
Linda Ósk Sigurðardóttir framkvæmdastjóri