Fjölmenni á sjálfboðaliðagleði

8. des. 2010

Deildin bauð sjálfboðaliðum sínum í gleði síðastliðið mánudagskvöld í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans sem haldinn er árlega 5. desember. Metþátttaka var þetta kvöld en alls mættu 55 sjálfboðaliðar og makar þeirra. Þeir áttu notalega stund saman yfir góðum veitingum, tónlist, söng og upplestri. Anna Bjarnadóttir, sjálfboðaliði, gerð að heiðursfélaga deildarinnar við þetta tilefni. Hún hefur verið sjálfboðaliði hjá deildinni í fjöldamörg ár, fyrst sem sjúkravinur og síðar í verkefninu Föt sem framlag. Hún hefur unnið mjög mikið og óeigingjarnt starf í þágu deildarinnar.  

Að venju var boðið upp á fjölbreytta og áhugaverða dagskrá. Þrír nemendur í Tónlistarskóla Kópavogs spiluðu nokkur lög fyrir gestina, þá komu í heimsókn Stefán Helgi Stefánsson tenórsöngvari og Margrét Sesselja Magnúsdóttir en þau mynda hópinn Elligleði. Stefán söng skemmtileg lög við góðar undirtektir viðstaddra. Einar Kárason kom einnig og las upp úr bók sinni Mér er skemmt. Eftir góða kvöldstund var svo happadrætti og fengu nokkrir heppnir gestir gjafir.

Hefð hefur skapast fyrir því hjá Kópavogsdeild að sjálfboðaliðar geri sér glaðan dag í tilefni af alþjóðadegi sjálfboðaliðans, 5. desember, og hefur aðsókn jafnan verið góð.

Stefán skemmti gestunum með söng.

Árið 1985 tilnefndu Sameinuðu þjóðirnar 5. desember alþjóðlegan dag sjálfboðaliða. Tilgangurinn var sá að vekja athygli á framlagi sjálfboðaliða til samfélagsins. Rauði krossinn er stærsta sjálfboðahreyfing í heimi. 

Einar Kárason að lesa upp úr bók sinni.
Strákarnir í Tónlistarskólanum voru flinkir á gítarinn.