Sjálfboðaliðar úr Menntaskólanum í Kópavogi tóku á móti viðurkenningu fyrir vel unnin störf

10. des. 2010

Nemendur í Menntaskólanum í Kópavogi í áfanganum SJÁ 102 fengu viðurkenningu á dögunum fyrir vel unnin sjálfboðaliðastörf. Á þessari önn útskrifuðust 14 nemendur úr áfanganum en hann er samstarfsverkefni Kópavogsdeildar og Menntaskólans í Kópavogi. Meðal verkefna sem nemendur unnu að voru störf í Dvöl, athvarfi fyrir fólk með geðraskanir, störf í Rjóðrinu, hvíldarheimili fyrir langveik börn, félagsstarf með 13-16 ára ungmennum af íslenskum og erlendum uppruna, vinna með innflytjendum á aldrinum 9-12 ára og aðstoð við jafningja með það að markmiði að liðsinna við nám og rjúfa félagslega einangrun. Þar að auki sátu þeir grunnnámskeið Rauða krossins þar sem þeir lærðu um upphaf, sögu, hugsjónir og verkefni hreyfingarinnar. Þeir héldu einnig dagbók um störf sín og lokaverkefni þeirra var að sjá um handverksmarkað í Rauðakrosshúsinu sem haldinn var 20. nóvember síðastliðinn og þar söfnuðust 300 þúsund krónur sem runnu til styrktar verkefnum innanlands.

Markmið áfangans er að nemendur kynnist sjálfboðnu starfi hjá Rauða krossinum og margir nemendur hafa haft á orði að þessi reynsla af sjálfboðaliðastörfum muni fylgja þeim og hafi breytt sýn þeirra á lífið. Deildin fékk leyfi til að vitna í hluta úr dagbók eins nemanda sem vann sem sjálfboðaliði í Rjóðrinu, hvíldarheimili fyrir langveik börn:

„Ég ákvað fara í áfangann Sjá 102 og gerast sjálfboðaliði  fyrir Kópavogsdeild Rauða krossins eina önn. Ég valdi að vinna í Rjóðrinu og sé sko ekki eftir því. Ég skrifaði alltaf pínu texta eftir hverja vakt og lýsti hvað við gerðum og fleira.

Það var rosalega misjafnt í hvaða verk við vorum látin í og auðvitað voru þau misjafnlega skemmtileg og erfið, en alltaf fór maður brosandi út. Það sem mér finnst líka svo æðislegt við þetta að maður verður bara maður sjálfur þegar maður er að leika við þessa krakka.  Það er enginn sem dæmir mann eða neitt svoleiðis.

Einn daginn vann ég t.d með strák sem var mjög fjölfatlaður. Ég talaði alveg heillengi við hann og það var alveg ótrúlegt hvað hann náði að opna sig fyrir mér. Það var líka svo gaman að tala við hann því við deildum allskonar áhugamálum og reynslu og við þekktum sama fólkið og töluðum heillengi um það. Þetta var rosalega skýr strákur. Mér fannst alveg rosalega gefandi að tala við þennan strák og hann var alveg ótrúlega andlega þroskaður. Ég þakka bara endalaust fyrir að hafa fengið svona tækifæri í lífinu og kynnast þessari hlið. Ég er ekki frá því að þetta er glaðasta og bjartasta fólkið í samfélaginu okkar og eru bestu kennararnir. Maður lærir alveg rosalega mikið af svona börnum og mér finnst eins og svona áfangi um sjálfboðið starf ætti bara að vera skylduáfangi í skólum.“