Hundavinir hittast einu sinni í mánuði.

3. feb. 2011

Þriðjudaginn 25. janúar hittust hundaheimsóknavinir í Borgartúni 25.

Farið var stuttlega yfir breytingar á hittingum á þessu ári. Stefnt er að því að eiga saman útihittinga annan hvern mánuð á móti almennum samverum innandyra. Einnig var kynntur nýr vefur fyrir sjálfboðaliða í hundaheimsóknum þar sem hægt er að skoða gamlar og nýjar fréttir ásamt myndasöfnum. Þá verður hægt að nýta sér spjallsvæði á vefnum.

Seinni hluta fundarins fengu síðan hundarnir að njóta sín þar sem Nanna Zophoníasdóttir mætti og kenndi eigendum að nudda hundana. Hundarnir virtust njóta þess vel að láta nudda sig og sátu stilltir á meðan eigendur þeirra stjönuðu við þá. Það er áreiðanlegt að allir hafi lært eitthvað nýtt á þessu og vonandi munu hundarnir njóta þess í framtíðinni að fá gott nudd af og til.

Næsti hittingur hundavina verður þriðjudaginn 22. febrúar og stefnt er að því að hittast þá við Reynisvatn og fara í stuttan göngutúr.